Garðyrkja

Decorative bubble

Friðheimabændur leggja áherslu á að rækta tómata með mestu bragðgæðum sem völ er á og í góðri sátt við náttúruna.

Tómatarnir eru ræktaðir allt árið um kring með fullkominni tækni á vistvænan hátt þar sem græn orka, tært vökvunarvatn og lífrænar varnir gera tómatana ferska og heilsusamlega.

Decorative Bubble

Ræktunaraðferðir

Gróðurhúsin eru hituð upp með heitu vatni, sem nóg er af í jörðinni. Borholan er 200 m frá gróðurhúsunum og vatnið er um 95°C þegar það kemur inn í húsin. Til að fá sem mest af birtu sólar inn er aðeins 4 mm gler á milli innihita og útihita og því þarf mikið magn af heitu vatni, eða um 200.000 tonn á ári! Kalda vatnið sem vökvað er með er sama vatn og drukkið er á heimilinu. Þar sem tómatar eru um 90% vatn skiptir miklu máli hversu gott vatn plantan fær. Á Íslandi er nóg af „grænu rafmagni“, sem búið er til úr fallorku kalda vatnsins og jarðgufu. Vaxtarlýsing er notuð til að tryggja framleiðslu allan ársins hring. Koltvísýringur unninn úr náttúrulegri jarðgufu er notaður til að auka ljóstillífun.

Piccolo tómatar

Plómutómatar

Hefðbundnir tómatar

Heirloom tómatar

Piccolo-tómatarnir

Árið 2012 fréttum við af mjög svo forvitnilegu kirsuberjatómatayrki sem við vorum síðar svo heppin að fá að prófa. Þetta voru Piccolo-tómatar, einstaklega sætir með góðri sýru, safaríkir og stökkir. Eiginlega algjört sælgæti.

Það sem gerir Piccolo-tómatana sérstaka er að það er ekki nóg að panta fræ eins og hægt er með flest tómatayrki, heldur þarf að fá til þess sérstakt leyfi. Fræin eru framleidd í litlu fyrirtæki í Provence-héraði í Frakklandi og fá þau úrvalsræktendur í hverju landi til að rækta þetta afbrigði og reyna að halda utan um það sem einstaka gæðavöru. Þannig hefur orðið til félagsskapur ræktenda í kringum þetta tómatayrki, sem hittist tvisvar á ári til að miðla þekkingu sín á milli hvað varðar ræktun og gæði.

Piccolo-tómatarnir eru litlir kirsuberjatómatar, sem við uppskerum bæði sem lausa og klasatómata. Þeir eru svolítið krefjandi í ræktun og er bæði tímafrekt að sinna plöntunum og að tína þá af sökum smæðar og fjölda tómata á klasanum. Lykilatriði við ræktun Piccolo-tómatanna er að leyfa þeim að fullroðna á plöntunum og ná þannig réttu sætustigi og hámarksbragðgæðum – og tína þá svo á hárréttu augnabliki. Við merkjum tómataöskjurnar með nafni Piccolo-tómatanna, með merki Friðheima og mynd af okkur hjónum, sem okkur finnst skemmtileg leið til að stytta leiðina á milli bóndans og neytandans.

Góður ræktandi reynir að stýra hita, raka og vökvun þannig að plöntunum líði vel og skili einnig hámarksgæðum og uppskeru. Knútur Ármann
Decorative Bubble
Decorative Bubble

Gróðurhúsin

Í hverju gróðurhúsi er stýritölva sem stýrir hita, raka, kolsýrugjöf og lýsingu. Stýritölvan er tengd við áburðarblandarann sem vökvar samkvæmt ákveðinni forskrift. Veðurstöð uppi á þaki gefur upplýsingar um vindstyrk, vindátt, hitastig og birtu. Þegar sólin sýnir sig og inngeislun nær ákveðnu marki slokknar á ljósunum – og kviknar svo aftur þegar þarf. Allt tengist þetta við móðurtölvuna, sem er tengd Netinu. Þannig getum við farið inn á Netið hvar sem við erum stödd í heiminum, fylgst með stöðunni, breytt gildum og stjórnað vökvun.

Friðheimabændurnir

Við höfum allt frá upphafi búskapar okkar í Friðheimum sérhæft okkur í tómataræktun. Við viljum gjarnan auka fjölbreytni tómata á íslenskum markaði og höfum því af og til prófað nýjar tegundir. T.d. vorum við fyrst til að rækta konfekt- og plómutómata í heilsársræktun hér á landi og nýjasta afurðin er hinir gómsætu Piccolo-tómatar. Við einsettum okkur fljótt að rækta tómatana með mestu bragðgæðum sem völ er á og í góðri sátt við náttúruna.

Við höfum leitast við að fylgjast vel með í faginu og höfum farið í fjölda fræðsluferða til nágrannalandanna til þess að kynna okkur ræktunaraðferðir, byggja upp sambönd og afla okkur þekkingar. Við höfum lagt mikinn metnað í framleiðsluna og uppskorið eftir því.

Við fengum hvatningarverðlaun Landbúnaðarháskóla Íslands 2009 og vorum kosin ræktendur ársins af Sölufélagi garðyrkjumanna árið 2010. Þá voru okkur veitt hvatningarverðlaun Ferðaþjónustu bænda 2011 og Landbúnaðarverðlaunin fyrir frumkvöðlastarf og fyrirmyndarbúskap árið 2014. Árið 2017 fengum við norrænu matvælaverðlaunin Emblu, Fjöreggið fyrir lofsvert framtak á matvæla- og næringarsviði, Tomato Spiritation Event fyrir að vera ein af 100 nýjungagjörnustu tómataræktendum í heimi ásamt Nýsköpunarverðlaunum SAF 2017. Árið 2019 hlutum við Menntasprota Samtaka atvinnulífsins. Við vorum fyrirmyndarfyrirtæki ársins 2020 hjá Ábyrgri ferðaþjónustu. Árið 2022 hlutum við Þekkingarverðlaun FVH og árið 2023 hlutum við verðlaunin Kaupmaður ársins hjá Þjóðmálum.

Býflugurnar okkar

Að öllu starfsfólki Friðheima ólöstuðu eru býflugurnar iðnustu starfskraftarnir, ef svo má að orði komast. Hjá okkur starfa um 1.200 býflugur, sem í raun kallast humlur á íslensku, við það að fræva blómin á tómatplöntunum þannig að uppskeran verði góð.

Hver býfluga getur frævað um 2.000 blóm á dag ef skilyrði eru hagstæð, og ekki veitir af þegar við erum að tala um 25.000 plöntur, sem hver og ein hefur tvö til fjögur blóm opin á hverjum degi.

Bumble Bee 1
Bumble Bee 2
Bumble Bee 3
Bumble Bee 4
Bumble Bee 5