Græn gróðurhús

Decorative bubble

Er ekki ótrúlegt að hægt sé að rækta grænmeti allan ársins hring á okkar kalda og dimma landi?

Þetta væri ekki hægt án okkar dýrmætu auðlinda – heita vatnsins, kalda vatnsins og þ.a.l. rafmagnsins – sem gera okkur kleift að rækta okkar grænmeti á sjálfbæran hátt í sátt og samlyndi við náttúruna.

Þau landgæði sem skapa garðyrkju á Íslandi mesta sérstöðu eru jarðhiti og vatnsorka; tvær mikilvægustu auðlindir landsins. Í báðum tilfellum er um að ræða „græna orkugjafa“ sem hægt er að virkja með sjálfbærum hætti. Orkuberinn er í báðum tilfellum vatn, þar sem vatnsorkan nýtir stöðuorkuna en jarðhitinn varmaorkuna.

Heita vatnið sem við notum kemur úr Reykholtshver sem er í aðeins 200 m fjarlægð frá gróðurhúsunum okkar. Reykholtshver er forn goshver sem gýs á tíu mínútna fresti og gefur 14 sekúndulítra af 100°C heitu vatni, sem nýtt er til að hita upp heimili og gróðurhús á svæðinu.

Með því að breyta orku fallvatna í raforku má með lýsingu plantna minnka dimman vetur norðurslóða. Við notum nefnilega vaxtarlýsingu í gróðurhúsunum til að tryggja framleiðslu tómata allan ársins hring.

Decorative Bubble

Allir tómatar jafnir í okkar augum

Í Friðheimum framleiðum við allt að tveimur tonnum af tómötum á dag. Ekki eru allir tómatar sem tíndir eru af plöntunum jafnfallegir eða jafnstórir en það sem fer á markað verður að ná ákveðinni flokkun sem fyrsta flokks tómatar. Hinir, sem lenda í því sem kallað er að vera annars flokks, bragðast alveg jafn vel en hafa bara ekki útlitið með sér. Rispaðir, of litlir eða misvaxnir tómatar sem eru um 5% af heildaruppskerunni eru þá nýttir í eldhúsinu okkar. Það er jú svo margt hægt að gera úr tómötum, hvort sem þeir eru rauðir eða grænir. Þegar við skiptum út plöntunum í gróðurhúsunum eru alltaf einhverjir tómatar á þeim sem ekki hafa náð þroska til að roðna, en þessa grænu og fínu tómata nýtum við líka. Þetta eru nokkur tonn á ári. Allt þetta magn fer inn í eldhús og þar búum við til úr þeim ýmislegt góðgæti fyrir veitingastaðinn okkar og í matarminjagripi sem seldir eru í Litlu tómatbúðinni. Þannig að við náum að nota alla uppskeruna og engu er hent.

Decorative Bubble Decorative Bubble

Hreina vatnið okkar

Kalda vatnið sem vökvað er með í gróðurhúsunum er sama vatn og drukkið er á heimilinu og gestum er boðið á veitingastaðnum. Það kemur úr uppsprettum í Fljótsbotnum, sem eru upptök Tungufljóts. Þar sem tómatar eru um 90% vatn skiptir miklu máli hversu gott vatn plantan fær. Það er dýrmæt auðlind fyrir okkur Íslendinga að hafa aðgang að góðu og ríkulegu lindarvatni til vökvunar.