Decorative bubble

Friðheimar er fjölskyldufyrirtæki rekið af hjónunum Knúti og Helenu.

Þau eiga fimm börn, Dórótheu, Karítas, Matthías Jens, Tómas Inga og Arnald sem taka öll virkan þátt í uppbyggingu fyrirtækisins. Ásamt því taka Dóróthea og maki hennar Kristján Geir þátt í daglegum rekstri og eiga þau soninn Jökul.

Decorative Bubble

Um okkur

Í Friðheimum eru ræktaðir tómatar allan ársins hring þrátt fyrir langan og dimman vetur.
Við tökum líka á móti gestum og sýnum þeim og segjum hvernig tómataræktunin gengur fyrir sig. Hægt er að setjast niður við hliðina á tómatplöntunum og smakka á afurðunum í dásamlega einföldum matseðli, sem byggist að sjálfsögðu á tómötum.
Gestir geta tekið með sér matarminjagripi sem framleiddir eru úr tómötum og gúrkum, og rifjað upp bragðið þegar heim er komið.
Í Friðheimum er einnig stunduð hrossarækt í smáum stíl og boðið upp á hestasýningar og heimsóknir í hesthúsið fyrir fyrirframbókaða hópa. Nýjasta viðbótin okkar er svo Vínstofan okkar sem er staðsett í okkar elsta gróðurhúsi. Þar er hægt að setjast niður í góðan drykk og létta rétti í notalegu umhverfi.

Við höfum alltaf lagt áherslu á að Friðheimar séu fjölskyldufyrirtæki þar sem allt okkar starfsfólk sé velkomið, vel metið og hluti af fjölskyldunni.  Helena Hermundardóttir
Decorative Bubble

Fyrirtækið hefur stækkað hratt og fjöldi starfsfólks farið úr einu stöðugildi árið 1995, þegar Helena var eini starfsmaðurinn, og í rúmlega 70 stöðugildi í dag.

  • Árið 1995 keyptu Knútur og Helena Friðheima, ákveðin í að flétta saman þær starfsgreinar sem þau höfðu menntað sig í; hestamennsku og garðyrkju. Þá voru á staðnum tvö gróðurhús og stórt tómt íbúðarhús. Ylrækt hófst í Friðheimum árið 1946 en enginn hafði búið á Friðheimum í nokkur ár áður en Knútur og Helena tóku við. Síðan Knútur og Helena hófust handa við uppbygginguna eru liðin nokkur ár og nú iðar allt af lífi.
  • Á árunum 1995-2001 voru byggð 1174 fm gróðurhús og gerð upp eldri hús og nýtt til ræktunar. Þessi fyrstu ár fóru í að koma sér fyrir.
  • Á árunum 2002-2006 var tekin ákvörðun að fara í heilsársræktun í tómötum, sett upp lýsingu í eldri hús og byggt nýtt 1.000 fm gróðurhús með fullri lýsingu. Þetta var jafnframt tími mikillar upplýsingaöflunar og endurmenntunar.
  • Árin 2007-2013 var svo komið að uppbyggingu á hestamiðstöð og ferðaþjónustu í Friðheimum. Byggt var hesthús fyrir 20 hross með móttökuaðstöðu og útisýningarsvæði með 120 manna áhorfendastúku. Þá var sett á markað hestasýning fyrir ferðamenn. Fljótlega var einnig farið að bjóða upp á heimsókn í gróðurhúsin, þau stækkuð um 60% og gestastofa byggð innan um plönturnar.
  • Árið 2013 var Litla Tómatbúðin byggð við gestastofuna. Þar eru matarminjagripirnir seldir og haustið 2014 var sett í loftið vefverslun þar sem hægt er að kaupa og fá sent heim góðgætið úr Friðheimum
  • Árið 2016 fórum við í magnaða aðgerð á elstu gróðurhúsunum okkar. Þau voru gamaldags, byggð með árstíða- og hefðbundna ræktun í huga en ekki lýsingarræktun, þannig að húsin voru helst til lág og erfitt að stýra loftslaginu. Við fengum hollenskan verktaka til að hækka gróðurhúsin um 1,5 metra. Þau voru söguð í sundur og lyft með þakglerinu í með tjökkum. Í þessari aðgerð var elstu húsunum svipt yfir í nútímann og nú eru þau orðin úrvalsræktunarhús fyrir heilsársræktun.
  • Árið 2017 var byggt nýtt hús, Jónshús, sem rúmar stórt keyrslu- og vinnslueldhús á neðri hæð og skrifstofu og fundaraðstöðu sem og aðstöðu fyrir fararstjóra og bílstjóra á efri hæð.
    2017 gengum við líka til liðs við Vakann, gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar
  • Árið 2018 byggðum við 450 fm skemmu frá Landsstólpa sem hýsir vélageymslu, verkstæði, lager og þar er líka hobbý-herbergi og líkamsrækt fyrir okkur og okkar frábæra starfsfólk.
  • 2019 byggðum við fleiri starfsmannahús, raðhús með 4 íbúðum og erum komin því með um 20 íbúðir í þorpinu sem við höfum byggt eða keypt og leigjum á sanngjörnu verði til starfsfólks.
  • 2020 var snúið ár vegna Covid-19 en við nýttum það til tækifæra og byggðum 5600 fm gróðurhús, pökkun, vörumóttöku og uppeldishús. Þar með ríflega tvöfölduðum við framleiðsluna á tómötum og gjörbreyttum allri vinnuaðstöðu til batnaðar.  Risastórt skref sem gerir okkur kleift að rækta mun meira magn í nýtísku gróðurhúsum sem eru hærri en eldri húsin okkar.  Til að hafa byggingarland fyrir þessa nýbyggingu keyptum við garðyrkjustöðina við hliðna á okkur, Birkilund en þar eru þrjú 400 fm gömul gróðurhús sem við nýtum í hefðbundna ræktun án lýsingar fyrir tómata.
  • 2021 bættum við við fleiri starfsmannahúsum enda starfmannafjöldin að vaxa, fjöldinn er orðin um 60 heilsársstarfsmenn.  Við kláruðum að taka í notkun nýju gróðurhúsin og færðum til innandyra í rými sem losnuðu eins og kaffistofu, búningsherbergi o.fl.
  • 2022 skiptum við út gömlum lömpum í fyrsta gróðurhúsinu sem við settum í heilsárslýsingu fyrir 20 árum.  Nýju lamparnir nýta rafmagnið betur og gefa okkur meira ljós per kw.  Á því ári byggðum við yfirbyggt hringgerði við hliðina á hesthúsinu, hringleikahús sem nýtist vel til þjálfunar hrossanna allt árið.
  • 2023 – stóra verkefnið þetta árið var að innrétta eitt af gömlu gróðurhúsunum í Birkilundi sem vínbar/vinnustofu sem við opnuðum í sumarbyrjun. Vínstofa Friðheima er nýr staður sem býður upp á mikla og skemmtilega möguleika til vaxtar. Þar er hægt að setjast niður í góða drykki og létta rétti í notalegu umhverfi.
  • Og nú áfram gakk…

Starfsfólkið okkar

Starfsfólkið okkar er hjarta fyrirtækisins og hefur byggt upp þetta ævintýri með okkur. Starfsfólkið okkar tekur virkan þátt í uppbyggingu fyrirtækisins og hefur mikil áhrif á hvaða verkefni eru tekin fyrir og í hvaða áttir við leitum.

Við erum með starfsfólk frá ýmsum þjóðernum. Það eru mikil verðmæti í því og getum við til dæmis boðið mörgum gestum okkar fræðslu á þeirra heimamáli.

Decorative Bubble

Sölufélag garðyrkjumanna

Við tilheyrum hópi garðyrkjubænda á Íslandi sem á saman Sölufélag Garðyrkjumanna (SFG), en það sér um sölu og dreifingu á garðyrkjuafuðrum bænda, þar með talið tómötunum okkar. Við erum ánægð með að við í SFG höfum valið að kolefnisjafna flutning frá garðyrkjustöðvum inn í verslanir með samningi við Kolvið, en þá stuðlum við ða því að binda jarðveg og draga úr jarðvegseyðingu á Íslandi, auk kolefnisbindingar í loftinu.

Sölufélag garðyrkjumanna var stofnað 1940 og er alfarið í eigu garðyrkjubænda.  Fyrirtækið kemur á beinu sambandi milli bænda og neytenda. Bændurnir fá að einbeita sér að því sem þeir gera best á meðan Sölufélagið tekur að sér dreifingu, pökkun, merkingu, flutning og kynningarstarf.

SFG hefur byggt upp skilvirkt kerfi sem heldur utan um gæðastjórn, kynningarstarf og dreifingu. Þetta öfluga markaðskerfi skilar 90% af heildsöluverði vörunnar til grænmetisbænda.
Sölufélagið tekur við uppskeru frá bændum og kemur henni ferskri og safaríkri til neytenda, ýmist gegnum öflugt dreifikerfi til verslana eða með þjónustu félagsins við stóreldhús, mötuneyti og salatbari. Með þessu móti hefur félagið skilað bændum betri nýtingu á afurðum og jafnframt lagt sitt af mörkum í baráttunni gegn matarsóun.

SFG á  tvö dótturfyrirtæki, annars vegar Í einum grænum sem var stofnað með þeim tilgangi að vinna gegn matarsóun og vinnur annars flokks grænmeti og nýtir í ýmsar matvörur, og hins vegar Matartímann sem sérhæfir sig í hollum skólamat með íslensku grænmeti og hráefni í aðalhlutverki fyrir leik- og grunnskóla.